Vitundarvakningarvika Tilveru 2025
Vitundarvakningarvika um ófrjósemi 2025
Þekking á frjósemi er ekki lúxus – hún er lífsnauðsyn
Dagana 1.–9. nóvember 2025 heldur Tilvera – samtök um ófrjósemi – upp á Vitundarvakningarviku um ófrjósemi. Markmið vikunnar er að efla fræðslu og skilning á ófrjósemi, brjóta niður þögn og fordóma og minna á að þekking á líkamanum er ekki lúxus, heldur lífsnauðsyn.
Í ár ber vitundarvakningin yfirskriftina Facts Forward – Education and Information, sem undirstrikar mikilvægi þess að allir hafi aðgang að áreiðanlegum upplýsingum um frjósemi. Þekking á líkamanum okkar er ekki forréttindi heldur réttur allra. Þegar við vitum, getum við valið – og þegar við getum valið, getum við lifað lífi sem er í takt við það sem við raunverulega þráum og viljum.
Vikan hefst helgina 1.–2. nóvember þegar Tilvera verður í Smáralind að selja happdrættismiða og söluvarning. Allur ágóði rennur til félagsins og styður starf sem miðar að því að veita félagsfólki stuðning, fræðslu og samstöðu.
Mánudaginn 3. nóvember verður opinn stuðningsfundur í Sigtúni 42 klukkan 20. Þar gefst fólki kostur á að ræða reynslu sína og finna samhug í öruggu og hlýju umhverfi. Sama dag birtist einnig fyrsta skoðunargreinin á Vísi, þar sem fjallað verður um rétt okkar allra til upplýsinga og fræðslu um frjósemi.
Þriðjudaginn 4. nóvember býður félagið félagsfólki sínu upp á frí sálfræðiráðgjöf, en þann dag geta félagsfólk nýtt sér símaráðgjöf sálfræðings án endurgjalds. Ef þið hafið áhuga að þiggja þessa ráðgjöf þá hvetjum við ykkur til að ská ykkur í félagið og þá hafið þið aðgang af öllum lokuðu facebook hópum Tilveru.
Miðvikudaginn 5. nóvember birtist önnur grein á Vísi sem heldur áfram að varpa ljósi á málefni ófrjósemi og mikilvægi þess að samfélagið tali opinskátt um frjósemi og þá fjölbreyttu reynslu sem henni fylgir.
Fimmtudagskvöldið 6. nóvember verður haldið skemmtikvöld í Sigtúni 42 sem markar jafnframt formlega opnun nýrrar heimasíðu Tilveru. Kvöldið hefst klukkan 19:30 með stuttu erindi frá Áslaugu Kristjánsdóttur, kynfræðingi, sem fjallar um kynlíf og ófrjósemi. Fulltrúi frá Hermosa mun kynna nýjustu kynlífstækin á markaðnum og bjóða gestum að skoða og kaupa vörur á góðu verði. Þá stígur Guðmundur Einar á svið með uppistand, og eins og þeir sem sáu sýninguna Lítill töffari vita, er þar von á frábærri skemmtun. Búbblur, léttar veitingar og góð stemning gera kvöldið að hátíð samveru og gleði. Aðgangur er ókeypis og öll eru hjartanlega velkomin, en félagsfólk Tilveru er sérstaklega hvatt til að mæta.
Á föstudeginum 7. nóvember birtist enn ein skoðunargrein á Vísi og um helgina, 8.–9. nóvember, verður Tilvera í Kringlunni með bás þar sem gestir geta kynnt sér starfsemi félagsins, keypt happdrættismiða og söluvarning og átt samtal við fulltrúa félagsins.
Vitundarvakningarvikan er mikilvægur liður í starfi Tilveru. Með henni vill félagið auka skilning, brjóta niður þögnina sem oft umlykur ófrjósemi og hvetja til samkenndar og umræðu. Þegar við tölum, fræðum og hlustum skapast samhugur – og úr honum sprettur von.
Þekking á frjósemi er ekki lúxus. Hún er lífsnauðsyn.
Nú er kominn tími til að tala – af ábyrgð, virðingu og kærleika.
Gleðilega vitundarvakningarviku Tilveru.








